Níu látnir í árás Bandaríkjamanna í Jemen

Sprenginar ómuðu um Sanaa, höfuðborg Jemen, í kvöld. Ljósmyndari AFP …
Sprenginar ómuðu um Sanaa, höfuðborg Jemen, í kvöld. Ljósmyndari AFP sá reyk rísa úr íbúðabyggingu. AFP

Að minnsta kosti níu borgarar eru látnir í árásum Bandaríkjanna á Sanaa, höfuðborg Jemen, í dag að sögn uppreisnarmanna Húta. Níu til viðbótar eru sagðir særðir eftir árásirnar, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrirskipaði.

Banda­ríkja­her gerði í dag umfangsmiklar árásir á upp­reisn­ar­menn Húta í Jemen. Her­inn hæfði tugi skot­marka en ráðamenn í Banda­ríkj­um segja árás­ina vera fyrsta skrefið í nýrri sókn­araðgerð til að opna aftur fyrir siglingarleiðir um Rauðahaf, sem Hútar hafa hindrað með árásum sínum síðustu mánuði.

Ljósmyndari AFP segist hafa heyrt þrjár sprengingar í Sanaa auk þess sem hann hafi séð reyk koma úr íbúðarhúsum í norðanveðrðri borginni. Öryggissveitir hafa girt svæðið af.

Heilbrigðisráðuneytið í Sana, sem er undir stjórn Húta, segir í yfirlýsingu að níu óbreyttir borgarar séu látnir og níu til viðbótar særðir, flestir alvarlega.

Ný aðgerð

Trump staðfesti fyr­ir skömmu að Banda­rík­in hefðu gert árás á Húta, sem eru upp­reisn­ar­samtök í Jemen sem njóta stuðings klerka­stjórn­ar­inn­ar í Íran.

Árás­irn­ar voru ým­ist frá hafi eða lofti. „Við mun­um beita feiki­legu ban­vænu afli þar til við höf­um náð mark­miði okk­ar,“ skrif­ar hann á Truth Social. 

Síðustu mánuði hafa Hút­ar truflað skipa­ferðir yfir hafsvæðið. Hútar juku nýlega árásir sínar á ísraelsk skip á Rauðahafi í kjölfar þess að Ísraelsmenn tóku að hindra fluttning hjálpargagna inn á Gasaströndina þann 2. mars.

Trump skrifar að meira en ár sé liðið frá því að skip sem siglir undir bandarísku flaggi hafi náð að sigla í gegnum Súesskurðinn, sem tengir Miðjarðarhaf við Rauðahaf.

Hernaðaraðgerðin er sú um­fangs­mesta sem Trump hef­ur fyr­ir­skipað á öðru kjör­tíma­bili sínu en ráðamenn segja þær til þess falln­ar að senda Írön­um skila­boð. Trump hef­ur áður sagst vilja ná sam­komu­lagi við Írani til þess að koma í veg fyr­ir að þeir eign­ist kjarn­orku­vopn.

Gæti staðið yfir í allnokkra daga

Ráðamenn­irn­ir segja við New York Times að árás­in á Hút­ana gæti staðið yfir í fjölda daga og gæti stig­magn­ast, háð því hvernig upp­reisn­ar­menn­irn­ir bregðast við.

Örygg­isþjón­ust­ur hafa átt í basli við að staðsetja vopna­kerfi Húta, en þau eru tal­in vera fram­leidd í neðanj­arðar­verk­smiðjum og smyglað inn frá Íran.

Trump held­ur áfram á Truth Social: „Til allra Húta-hryðju­verka­manna: Tími ykk­ar er runn­inn upp.“ Hann send­ir svo skila­boð til Írana: „Stuðningi við Húta þarf að ljúka SAM­STUND­IS!“

Hernaðaraðgerðin er sú um­fangs­mesta sem Trump hef­ur fyr­ir­skipað á öðru …
Hernaðaraðgerðin er sú um­fangs­mesta sem Trump hef­ur fyr­ir­skipað á öðru kjör­tíma­bili sínu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert