Hútar í Jemen segjast hafa gert árás á bandarískt flugmóðurskip til að bregðast við umfangsmiklum árásum Bandaríkjamanna í nótt þar sem rúmlega 30 Jemenar eru sagðir hafa látist.
Bandaríkjaher gerði í gærkvöldi umfangsmiklar árásir á uppreisnarmenn Húta í Jemen og hæfði þar tugi skotmarka í borgunum Sanaa og Radaa, sem eru yfirráðasvæði uppreisnarmannanna. Segjast þeir hafa banað fjölda háttsettra Húta.
Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrirskipaði árásina á Jemen í gær í von um að opna aftur siglingarleiðir um Rauðahaf, sem Hútar hafa hindrað með árásum sínum á flutningaskip síðustu mánuði. Hefur árásum uppreisnarmannanna á ísraelsk skip fjölgað eftir að Ísraelsmenn hindruðu aftur flutning neyðargagna til Gasa.
„Til að bregðast við árás [Bandaríkjanna] hafa vopnaðar sveitir framkvæmt hernaðaraðgerð [...] á bandaríska flugvélamóðurskipið USS Harry Truman og fylgisskip þess,“ tilkynna Hútar nú í yfirlýsingu. Þar segir að 18 skot- og stýriflaugar hafi verið notaðar í árásinni auk dróna.
Sem fyrr segir eru á fjórða tug sagði látnir í árásum Bandaríkjanna á höfuðborg Jemen, Saana, og borgina Radaa. Þá eru að minnsta kosti 101 særðir og að sögn heilbrigðisráðuneytisins í Saana, sem er undir stjórn Húta, eru flest fórnarlambanna konur og börn.
Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna,MichealWaltz, segir árásirnar hafa beinst að háttsettum leiðtogum innan uppreisnarsamtakanna og að fjöldi þeirra hafi látist í árásunum.
Um er að ræða umfangsmestu hernaðaraðgerð sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað á öðru kjörtímabili sínu og segja ráðamenn árásirnar vera fyrsta skrefið í nýrri sóknaraðgerð til að opna aftur fyrir siglingarleiðir um Rauðahaf, sem Hútar hafa hindrað með árásum sínum síðustu mánuði.
Hútar segjast þó staðfastir í því að hindra leiðina og segjast ætla að halda því áfram „með aðstoð Allah almáttugs“ þar til hjálpargögn berast á Gasaströndina að nýju.
Um leið og Bandaríkjamenn gerðu sína árás í gærkvöldi birti Donald Trump Bandaríkjaforseti færslu á Truth Social þar sem hann beindi oðrum sínum að Hútum og velunnurum þeirra, Írönum.
Þar sagði Trump að Hútar þyrftu að láta af árásum sínum á Rauðahfafi Rauðahafi og skipaði klerkastjórninni í Íran að hætta að fjármagna jemenska uppreisnarhópinn.
Trump hefur á síðustu vikum reynt að semja við Írana um kjarnorkuvopn og hótaði jafnvel Írönum árás.