Innanríkisráðherra Norður-Makedóníu sagði á blaðamannafundi í dag að yfirvöld séu að rannsaka hvort spilling og mútugreiðslur hafi tengst mannskæðum bruna sem átti sér stað á skemmtistað í smábænum Kocani í nótt.
Staðfest er að 59 hafi látist í brunanum og 155 slösuðust en um 1500 manns voru saman komin til að sækja tónleika hiphopdúettsins DNK á skemmtistaðnum.
„Þetta fyrirtæki hefur ekki löglegt starfsleyfi,“ sagði Pance Toskovski, innanríkisráðherra Norður-Makedóníu, við fréttamenn.
„Þetta leyfi, eins og margt annað í Makedóníu í fortíðinni, tengist mútum og spillingu,“ bætti hann við.