Segja flest fórnarlömbin vera konur og börn

Frá höfuðborg Jemen, Saana, snemma í morgun.
Frá höfuðborg Jemen, Saana, snemma í morgun. AFP

Á fjórða tug hafa látið lífið í árásum Bandaríkjanna á höfuðborg Jemen, Saana, og borgina Radaa. Þá eru að minnsta kosti 101 særðir og að sögn heilbrigðisráðuneytisins í Saana, sem er undir stjórn Húta, eru flest fórnarlambanna konur og börn.

Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, Micheal Waltz, segir árásirnar hafa beinst að háttsettum leiðtogum innan uppreisnarsamtakanna og að fjöldi þeirra hafi látist í árásunum.

Fjölmiðlar sýna börn meðhöndluð á sjúkrahúsi 

Um er að ræða umfangsmestu hernaðaraðgerð sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað á öðru kjörtímabili sínu og segja ráðamenn árásirnar vera fyrsta skrefið í nýrri sóknaraðgerð til að opna aftur fyrir siglingarleiðir um Rauðahaf, sem Hútar hafa hindrað með árásum sínum síðustu mánuði.

Einnig eru þær sagðar vera til þess fallnar að senda Írönum skilaboð, en Hútar njóta stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran.

Myndskeið fjölmiðla, sem eru undir stjórn Húta, sýna börn, þar á meðal stúlku með særa fætur vafna í sárabindi, vera meðhöndluð á sjúkrahúsi í kjölfar árásanna.

Aldrei upplifað annað eins 

Í viðtali við AFP-fréttaveituna segir einn tveggja barna faðir húsið sitt hafa hrist, glugga hafa splundrast, og að fjölskylda hans hafi verið skelfingu lostin á meðan árásunum stóð.

Sagðist hann hafa búið í Saana í tíu ár og heyrt þá reglulega í sprengjuárásum vegna borgarstyrjaldarinnar í Jemen, en að það komist ekki í tæri við árásir Bandaríkjanna.

„Ég hef aldrei upplifað annað eins áður,“ segir faðirinn sem kemur fram undir nafninu Ahmed.

Greint hefur verið frá að árásir á Húta gætu staðið yfir í fjölda daga og gætu stigmagnast, háð því hvernig uppreisnarmennirnir bregðast við en samkvæmt AFP-fréttaveitunni hafa Hútar heitið viðbrögðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert