Að minnsta kosti 40 manns létust þegar hvirfilbylir fóru um miðvestur- og suðurhluta Bandaríkjanna um helgina.
Hvirfilbylirnir fóru verst með Missouri-ríki þar sem 12 manns hafa týnt lífi í óveðrinu síðan á föstudag.
Í Kansas- og Texas-ríkjum olli öflugur vindurinn rykstormum sem þeystu heilu bifreiðunum til og frá og urðu 12 manns að aldurtila. Dauðsföll voru einnig skráð í Arkansas-, Alabama- og Mississippi-ríkjum.
Í Kansas-ríki létust að minnsta kosti átta eftir að meira en 55 ökutæki lentu saman vegna rykstorms og í Texas-ríki olli annar rykstormur því að um 38 bílar hlóðust upp þannig að minnsta kosti fjórir týndu lífi.
Ofsaveðrið hafði áhrif á svæði sem á búa um 100 milljónir manns. Vindurinn virkaði sem físibelgur á annað hundrað skógarelda í Oklahoma-ríki.
Flóðaviðvaranir voru gefnar út í hluta Texas-, Louisiana-, Alabama-, Arkansas-, Tennessee-, Mississippi-, Georgia-, Kentucky- og Norður-Karólínu-ríkja.
Á 400 þúsund manns voru án rafmagns í gærkvöld.
Neyðarástandi hefur verið líst yfir í Arkansas-, Georgíu- og Oklahoma-ríkjum.
Í Missouri sagði ríkisstjórinn Mike Kehoe umfang eyðileggingarinnar í ríkinu yfirþyrmandi. Hundruð heimila, skóla og fyrirtækja hafa ýmist eyðilagst eða stórskemmst, að því er fram kemur í yfirlýsingu hans.
Donald Trump Bandaríkjaforseti bað landsmenn að sameinast sér og Melaniu forsetafrú í bæn fyrir öllum sem hafa orðið og verða fyrir áhrifum af stormunum hræðilegu, að því er fram kemur í færslu hans á Truth Social-samfélagsmiðlinum í hans eigu.