60 tonn af olíu í sjóinn

Tugir tonna af olíu láku í sjóinn í Bærum í …
Tugir tonna af olíu láku í sjóinn í Bærum í Noregi í kjölfar innbrots í spennistöð í gærkvöldi. Ljósmynd/Hoyre.no

Innbrot í spennistöð í Bærum, nágrannasveitarfélagi norsku höfuðborgarinnar Óslóar, í gærkvöldi varð til þess að allt að 60 tonn af olíu runnu út í Sandvik-ána og með henni út í sjó, en sá eða þeir sem á ferð voru við spennistöðina skrúfuðu frá olíukrana þar á vettvangi með þessum afleiðingum.

Olían, sem er af gerðinni Nytro 10 XN, er ekki skaðleg fólki, en getur hins vegar valdið miklum spjöllum á umhverfinu. Engu að síður hefur bæjarstjórnin tekið þá ákvörðun að sjóböð í Sandvik, sem er vinsæll baðstaður, einkum í tengslum við gufuböð sem þar eru, verði bönnuð fyrst um sinn.

PST gert aðvart

„Í hreinskilni sagt er málið auðvitað grafalvarlegt. Við erum að tala um mjög mikið olíumagn,“ segir Rune Elstad, vaktstjóri hjá slökkviliðinu í Ósló, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, en Statnett, sem rekur spennistöðina, skrifar á heimasíðu sína að öryggisbúnaður á staðnum hafi fangað stóran hluta olíunnar áður en hún rann út í ána og barst með henni til sjávar.

Lögreglan vill ekki tjá sig um málið enn sem komið er, en eftir því sem staðarblaðið Budstikka greinir frá hefur öryggislögreglunni PST verið gert aðvart um málið í takt við það sem tíðkast hefur undanfarið er atvik koma upp er grunur leikur á að gætu verið skemmdarverk á ábyrgð erlendra aðila.

NRK

Budstikka

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert