Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstöðumaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO, hvatti í dag bandarísk stjórnvöld til að taka niðurskurð fjárframlaga til heilbrigðismála á alþjóðavettvangi til endurskoðunar. Með honum væri milljónum mannslífa ógnað.
„Við biðjum Bandaríkin að endurskoða stuðning sinn við heilbrigðismál í heiminum,“ sagði forstöðumaðurinn á blaðamannafundi í dag og bætti því við að skerðing styrkja til alnæmismeðferðar á alþjóðavettvangi ein og sér gæti gert 20 ára framfarir að engu og kostað yfir tíu milljónir nýrra HIV-smita og þrjár milljónir dauðsfalla af völdum sjúkdómsins.