Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst ræða við Vladimír Pútín Rússlandsforseta á morgun um hvernig megi binda endi á innrásarstríð Rússa í Úkraínu.
„Við höfum lagt mikla vinnu [í friðarsamninga] um helgina. Við viljum sjá hvernig við getum stöðvað þetta stríð,“ segir forsetinn er hann ræddi við blaðamenn um borð í flugvél.
Trump segir viðræður um hvernig megi deila niður „ákveðnum eignum“ á milli Rússlands og Úkraínu þegar hafnar.
„Við munum tala um land. Við munum tala um orkuver.“
Steve Witkoff, sem fer fyrir samninganefnd Bandaríkjamanna, ræddi við Pútín í síðustu viku.
Hann vildi ekki tjá sig um mögulega samninga um yfirtöku Rússa á úkraínsku landsvæði. Rússar stjórna nú um það bil 20% af landi Úkraínu.
Trump lofaði því ítrekað í kosningabaráttu sinni að hann ætlaði að binda enda á stríðið í Úkraínu sem hófst í febrúar árið 2022. Ætlaði hann að gera það strax á fyrsta degi í embætti.
Skömmu eftir að Trump var aftur tekinn við sæti forseta átti hann 90 mínútna langt símtal við rússneska starfsbróður sinn um hvernig mætti koma friði aftur á í Úkraínu.
Bandaríkin og Úkraína hafa bæði samþykkt að bera undir Rússa samkomulag um 30 daga vopnahlé.
Pútín hefur sagst styðja hugmyndina um vopnahlé en er þó með lista af erfiðum kröfum sem þarf að uppfylla áður en hægt er að ná slíkum friði.
Kreml sækist meðal annars eftir því að í friðarsamningum komi staðfesting á því að Úkraína muni ekki ganga í Atlantshafsbandalagið og að ríkið verði áfram hlutlaust.
„Við munum krefjast þess að skotheldar öryggisábyrgðir verði hluti af þessu samkomulagi,“ segir Alexander Gruskho, varautanríkisráðherra Rússlands.