Unglingspiltur er alvarlega særður í Ósló í Noregi eftir skotárás á neðanjarðarlestarstöðinni í Stovner þar í borginni nú í kvöld og barst lögreglu fjöldi tilkynninga um atburðinn, eftir því sem hún greinir frá á samfélagsmiðlum.
„Okkur bar fljótt að garði og fundum við þá manneskju sem hafði verið skotin. Nú leitum við að gerendum, nokkrir sáust forða sér á hlaupum frá vettvangi,“ segir Gabriel Langfeldt lögregluvarðstjóri í samtali við norska dagblaðið VG.
Lögregla hefur ekki fundið árásarvopnið og vinnur nú að því að fá framburð vitna að atburðinum auk þess að tryggja sér upptökur öryggismyndavéla.
„Neðanjarðarlestin gengur samkvæmt áætlun utan hvað hún stoppar ekki á Stovner-stöðinni heldur ekur beint í gegn þar,“ segir Knut-Martin Løken, upplýsingafulltrúi almenningssamgangnafyrirtækisins Ruter, við VG.