Yfirvöld í Rússlandi staðfestu í dag að Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, muni ræða saman í síma á morgun um hvernig binda megi enda innrásarstríð Rússa í Úkraínu.
Trump sagði við fréttamenn í gær að mikil vinna hafi verið unnin á milli aðila að leysa Úkraínudeiluna og að hann myndi ræða við Pútín á þriðjudag.
„Það er svo sannarlega raunin. Það er verið að undirbúa slíkt samtal,“ sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Rússlandsstjórnar, við fréttamenn í dag, án þess að tjá sig um það sem leiðtogarnir muni ræða um.
Steve Witkoff, sem fer fyrir sendinefnd Bandaríkjamanna, var í Moskvu í síðustu viku til að kynna sameiginlega vopnahléstillögu Bandaríkjamanna og Úkraínu sem gerir ráð fyrir 30 daga hléi á hernaðaraðgerðum.
Pútín hefur sagst styðja hugmyndina um vopnahlé en segist vera með lista af erfiðum kröfum sem þarf að uppfylla áður en hægt verði að semja um frið.