Staðfesta viðræður Pútíns og Trumps

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín ætla að ræða saman …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín ætla að ræða saman í síma á morgun. AFP

Yfirvöld í Rússlandi staðfestu í dag að Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, muni ræða saman í síma á morgun um hvernig binda megi enda innrásarstríð Rússa í Úkraínu.

Trump sagði við fréttamenn í gær að mikil vinna hafi verið unnin á milli aðila að leysa Úkraínudeiluna og að hann myndi ræða við Pútín á þriðjudag.

„Það er svo sannarlega raunin. Það er verið að undirbúa slíkt samtal,“ sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Rússlandsstjórnar, við fréttamenn í dag, án þess að tjá sig um það sem leiðtogarnir muni ræða um.

Steve Witkoff, sem fer fyrir sendinefnd Bandaríkjamanna, var í Moskvu í síðustu viku til að kynna sameiginlega vopnahléstillögu Bandaríkjamanna og Úkraínu sem gerir ráð fyrir 30 daga hléi á hernaðaraðgerðum.

Pútín hefur sagst styðja hugmyndina um vopnahlé en segist vera með lista af erfiðum kröfum sem þarf að uppfylla áður en hægt verði að semja um frið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert