„Allir byrjuðu að hrópa og öskra: „Forðið ykkur, forðið ykkur!“,“ segir Marija Taseva, nítján ára ungmenni sem var úti að skemmta sér með systur sinni á skemmtistaðnum Pulce í Kocani í Norður-Makedóníu þegar eldur braust út aðfaranótt sunnudags.
Fjölmenni var á staðnum að sækja tónleika hjá bandinu DNK. Tónleikagestirnir reyndu að flýja þegar eldurinn breiddist út en takmarkaður fjöldi útganga gerði þeim erfitt fyrir og voru bakdyrnar í þokkabót læstar.
Minnst 59 eru látnir og 155 til viðbótar eru slasaðir.
„Ég veit ekki hvernig ég endaði á jörðinni. Ég gat ekki staðið upp og svo fór fólk að traðka á mér,“ segir Taseva.
Hún náði að lokum að forða sér en systir hennar gerði það ekki.
„Systir mín dó – mér var bjargað en ekki henni.“
Skemmtistaðurinn er í byggingu sem hýsti áður teppaverksmiðju, og var ekki með starfsleyfi.
Lögregla hefur handtekið fimmtán vegna rannsóknar á brunanum.
Innviðaráðherra Norður-Makedóníu Pance Toskovski segir grun um að mútur og spilling tengist málinu.
Þegar vettvangurinn var rannsakaður í gær komu ýmsir „vankantar“ á skemmtistaðnum í ljós. Þar á meðal annmarkar á brunavörnum á staðnum.
„Flestir létust vegna áverka sem þeir hlutu eftir að hafa lent undir mannmergðinni í ringulreiðinni sem skapaðist þegar tónleikagestir reyndu að forða sér,“ segir Kristina Serafimovska, forstjóri Kocani-spítalans.
Alls eru um sjötíu sjúklingar með brunasár eða reykeitrun á spítalanum núna.
„Flestir eru með svæsin brunasár, sem ná yfir 18% af líkama þeirra. Annars og þriðjastigs brunasár á höfði, hálsi, efri búk, handleggjum, höndum og fingrum,“ segir Vladislav Gruev, lýtalæknir sem hefur verið að sjá um sjúklingana.