Jarðneskar leifar sjö Norðmanna af fjórtán sem aftökusveit þýska hernámsliðsins tók af lífi fyrir réttum 80 árum, 17. mars 1945, og var í kjölfarið sökkt í Óslóarfjörðinn í trékössum, sem fergðir voru grjóti, eru líkast til fundnar á hafsbotni og hyggjast samtökin Heiðursskuld, eða Æresgjeld, standa fyrir því að koma þeim á þurrt land og bera á þær kennsl.
Hafa samtökin átt í nánu samstarfi við lögregluna í austurumdæminu og réttarmeinafræðistofnunina í Ósló um kennslahluta verkefnisins og notað fjarstýrða kafbáta með myndavélabúnaði til að leita leifanna sem nú eru líklega fundnar að hluta. Segir Cecilie Lilaas-Skari lögreglustjóri í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að fundarstaðurinn á hafsbotni, úti fyrir Nesoddtangen, hafi ekki verið lýstur vot gröf og því brjóti það ekki í bága við lög að færa líkin á þurrt land.
„Eftir því sem við komumst næst er þarna um að ræða jarðneskar leifar manneskju,“ sagði Lilaas-Skari á blaðamannafundi um málið í dag, en nokkur rannsóknarvinna hefur átt sér stað síðan myndir frá kafbátnum fjarstýrða sýndu kassalaga hlut á hafsbotninum í nóvember. Eftir að sýni var tekið af innihaldinu var því slegið föstu 17. janúar að leifarnar væru mennskar.
„Hér búa mikilvægar sögur að baki og eygjum við nú von um að fá nánari svör,“ sagði lögreglustjóri á fundinum.
Veturinn 1945, síðustu mánuðina sem Noregur var undir járnhæl þýska hernámsliðsins sem réðst til innrásar að morgni 9. apríl 1940, tóku Þjóðverjar tugi Norðmanna af lífi við Akershus-kastalann í Ósló fyrir ýmsar sakir, voru 28 manns til dæmis skotnir til bana 9. og 10. febrúar í hefndarskyni fyrir víg Karls Marthinsens lögreglustjóra svo eitthvað sé nefnt.
Kåre Olafsen hét maður sem hugsanlega er meðal þeirra sem liggja á hafsbotninum úti fyrir Nesoddtangen. Hann var 25 ára gamall þegar honum var stillt upp frammi fyrir aftökusveit Þjóðverja. Nú vonast Per-Erik Knutsen frændi hans til þess að fá að vita fyrir víst hvað um Olafsen varð fyrir hátt í öld.
„Ég vona að þeir taki upp leifarnar sem nú eru fundnar, þá fáum við að vita hvort hann sé einn þeirra,“ segir Knutsen við NRK, en um það bil fjórðungur þeirra 400 Norðmanna, sem Þjóðverjar tóku af lífi í síðari heimsstyrjöldinni, er ófundinn.
Afkomendur þeirra 42, sem stillt var upp frammi fyrir aftökusveit í febrúar og mars 1945, komu í dag saman við Akershus-kastalann og minntust löngu horfinna ættingja sinna frá einum myrkasta kaflanum í sögu Noregs, hernámsárunum 1940 til 1945.