Loftvarnaflautur tóku að óma um allan Kænugarð upp úr miðnætti í nótt. Borgarstjórinn Vítalí Klitsjkó sendi á sama tíma út skeyti til samborgara sinna, þar sem hann sagði þeim að leita skjóls. Loftvarnalið í úkraínsku höfuðborginni væri að verjast vélfyglum óvinarins.
Þessu eru borgarbúar vanir.
En á hóteli í miðborginni vaknaði blaðamaður við háværa viðvörun úr símanum. Og aðeins nokkrum sekúndum síðar bárust inn á hvert herbergi hótelsins hljóðrituð skilaboð þar sem gestum var stranglega ráðlagt að leggja leið sína niður í kjallara.
Að ráði heimamanns var þó ákveðið að fara ekki að þessum leiðbeiningum, heldur reynt að sofna aftur.
Hann var ekki langur, svefninn sem náðist áður en síminn glumdi aftur. Nú með viðvörun um að bæst hefði í loftárásirnar.
Beint við lá að ljúka upp glugganum, á sjöttu hæð hótelsins, horfa til himins og hlusta eftir því suði sem einkennir víst þá dróna sem Rússar beita í þessum tíðu árásum sínum. Minnsti niður getur gefið til kynna að dróni sé nærri, enda útgöngu- og umferðarbann í gildi yfir nóttina.
Þar úti var svartur himinn, engar eldglæringar og raunar dauðaþögn. En svo heyrðust sprengingar í fjarska.
Þá þýddi þó fátt annað en að loka aftur glugganum, leggja höfuð aftur á koddann og vona það besta. Sú staðreynd að miðborg Kænugarðs er sá staður í Úkraínu sem best er varinn loftárásum kom þá að gagni.
Í morgun hafði rykið sest. Ljóst varð að Rússar höfðu sent að minnsta kosti 174 árásardróna yfir Úkraínu og loftvarnasveitir náð að skjóta niður rúmlega helming þeirra að sögn flughersins.
Um 500 manns í Ódessa-héraði misstu rafmagn og einn særðist þar að sögn héraðsstjórans. Þá skemmdust nokkrar byggingar, þar á meðal leikskóli.
Þjóðin var heppin þessa nótt, sem sagt.
Það er annars konar þögn sem mætir hópi íslenskra blaðamanna um morguninn, þegar við leggjum leið okkar í víðáttumikinn kirkjugarð við jaðar borgarinnar.
Utan garðsins standa blómasalar í röðum, reiðubúnir að selja syrgjendum blóm. Einu hljóðin, þegar inn er komið, eru krunk í krákum og vélargangur í dráttarvél frá tímum sovétríkjanna.
Svo taka við blaktandi fánar, bláir og gulir, í hundraðatali. Enn eitt sönnunargagnið um þessa þriggja ára baráttu við innrásarher Rússa.
Við erum komin í grafreit liðsforingja og annarra háttsettra í úkraínska hernum.
Karlmaður á miðjum aldri gengur einbeittur í gegnum garðinn.
Í hendi hans, tvær rauðar rósir. Þær leggur hann að leiði og virðist rata þangað af vana.