Geimfararnir Barry „Butch“ Wilmore og Sunita „Suni“ Williams komu aftur til jarðar fyrr í dag, en þau höfðu verið um borð í alþjóðlegu geimstöðinni níu mánuðum lengur en áætlað var.
Upphaflega hafði verið gert ráð fyrir að leiðangur þeirra til og frá geimstöðinni í júní sl. myndi taka um það bil átta daga, en bilun í geimfari Boeing-flugvélaverksmiðjanna, Starliner, þýddi að þau neyddust til að vera áfram í geimstöðinni í 285 daga. Fóru þau umhverfis jörðina á sporbaug næstum 4.600 sinnum á þeim tíma.
Geimfararnir Nick Hague frá Bandaríkjunum og Aleksandr Gorbunov frá Rússlandi komu um borð í geimstöðina í september síðastliðnum, og flutti geimferja SpaceX-fyrirtækisins, Crew Dragon, fjórmenningana heim í gær.
Lenti farið í sjónum skammt undan ströndum Flórída, og tók rúmlega klukkustund að ná geimförunum út. Munu þeir nú fara til Houston í Texas og undirgangast nokkurra daga læknisrannsókn og eftirlit.
Mál geimfaranna hefur orðið að pólitísku bitbeini vestanhafs, þar sem Trump Bandaríkjaforseti og Elon Musk, eigandi SpaceX, hafa sakað fyrri Bandaríkjastjórn um að hafa skilið geimfarana eftir í geimstöðinni af pólitískum ástæðum.
Forsvarsmenn NASA hafa hins vegar sagt að stjórnmál hafi ekki leikið neina rullu í ákvarðanatöku um að halda Wilmore og Williams lengur í geimnum en upphaflega stóð til. Þar hafi skipt einna mestu máli að ekki var talið rétt að flýta geimskoti til þess að sækja tvímenningana, og því hafi það verið talið betra að leyfa þeim að verða hluti af reglulegri áhöfn geimstöðvarinnar.