Fjölskyldur gísla sem eru í haldi Hamas á Gasasvæðinu krefjast skýrra svara frá ísraelskum stjórnvöldum um hvernig öryggi gíslanna sé tryggt fyrir hernaðaraðgerðum Ísraela á svæðinu.
Heilbrigðisyfirvöld á Gasa segja Ísraelsher hafa drepið yfir 400 íbúa í umfangsmiklum loftárásum í nótt. Er þetta mannskæðasta árásin frá því að vopnahlé á Gasa átti að taka gildi.
Hafa ísraelsk stjórnvöld heitið því að halda baráttunni á Gasa áfram þar til Hamas afhendir fólkið sem hryðjuverkasamtökin tóku höndum í hryðjuverkunum 7. október.
Hafa fjölskyldur gíslanna farið fram á fund með forsætisráðherranum, varnarmálaráðherranum og yfirmanni samningateymisins þar sem þau vilja fullvissu fyrir því að gætt sé að öryggi gíslanna.
Fjölskyldurnar kalla eftir því að stjórnvöld sjái til þess að Hamas afhendi gíslana áður en „allt annað“ er gert.
Hafa aðstandendur gíslanna boðað til mótmæla fyrir utan skrifstofu Benjamíns Netanjahús síðar í dag.