Símtal Bandaríkjaforseta og Rússlandsforseta hefst klukkan 13 í dag að íslenskum tíma og stendur yfir til klukkan 15, eða samtals í tvær klukkustundir.
Kreml staðfestir þessa tímasetningu.
Forsetarnir munu ræða hvernig sé hægt að binda enda á innrásarstríð Rússa í Úkraínu. Hvíta húsið hefur sagt að ríkin hafi aldrei verið jafn nálægt því að semja um frið í Úkraínu eins og nú.
Stríð Rússa og Úkraínumanna hefur stigmagnast á undanförnum vikum.
Þúsundir Úkraínumanna eru án rafmagns í dag í kjölfar umfangsmikillar árásar Rússa í nótt þar sem yfir 130 árásardrónum var beint að mikilvægum innviðum. Úkraínski flugherinn segist hafa skotið niður 63 dróna af 137 sem sendir voru á loft.
Í Kænugarði féll brak úr dróna, sem skotinn var niður, á skólalóð við byrjun skóladags. Nemendur voru í neðanjarðarbyrgjum og særðist enginn.
Þá segir rússneska varnarmálaráðuneytið að 46 úkraínskir drónar hafi verið skotnir niður í árás á nokkur héruð Rússlands í nótt. Sex særðust í árásunum.