Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísraels, segir að Hamas „verði að skilja að leikreglurnar hafa breyst“ eftir að Ísrael gerði hörðustu árásir sínar á Gasa frá því vopnahlé hófst í janúar.
„Ef þeir leysa ekki alla gíslana strax úr haldi þá munu hliðin að helvíti opnast og þeir munu standa frammi fyrir öllum mætti IDF [Ísraelshers] í loftinu, á sjónum og á landi þar til samtökin hafa verið gjöreyðilögð,“ var haft eftir ísraelska varnarmálaráðherranum í yfirlýsingu sem ráðuneytið sendi frá sér þegar hann heimsótti Tel Nof-flugstöðina.
Greint var frá því í morgun að heilbrigðisráðuneyti Gasa, sem er undir stjórn Hamas, hefði greint frá því að Ísraelsher hefði drepið yfir 330 íbúa á Gasaströndinni í loftárás í nótt.
Í yfirlýsingu frá varnarmálaráðherra Ísraels í kjölfar árásarinnar í nótt kom fram að Ísraelsher ætli að halda áfram að berjast á Gasa á meðan ekki væri búið að afhenda alla gíslana sem teknir voru í hryðjuverkunum 7. október.