Lögðu á ráðin um að myrða ungling

Handteknu eru grunaðir um að hafa lagt á ráðin um …
Handteknu eru grunaðir um að hafa lagt á ráðin um að myrða son lögreglumanns í norsku olíuhöfuðborginni Stavanger á vesturströnd landsins. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Tveir drengir á táningsaldri voru handteknir í Stavanger í Noregi í síðustu viku – og tveir menn á þrítugsaldri um helgina – vegna gruns um að þeir hefðu lagt á ráðin um að myrða dreng þar í bænum á aldur við hina yngri af hinum fjórum handteknu.

Staðfestir norska rannsóknarlögreglan Kripos við ríkisútvarpið NRK að sá, sem ganga hefði átt milli bols og höfuðs á, væri sonur lögreglumanns í Stavanger og segir lögmaður embættisins, John Ivar Johansen, við NRK að annar táninganna handteknu hefði tekið verkið að sér og átt að vinna það á fimmtudaginn, sama dag og lögregla handtók hann.

Var hann úrskurðaður í einnar viku gæsluvarðhald fyrir Héraðsdómi Suður-Rogalands á föstudaginn, grunaður um brot gegn 279. grein norsku hegningarlaganna, sem fjallar um samkomulag um að verða öðrum að bana. Sama dag tók Kripos rannsókn málsins yfir.

Rannsóknin teygir anga víða

„Við getum ekki útilokað að grunur muni falla á fleiri í málinu,“ segir Johansen við NRK, en hinn táningurinn í málinu var handtekinn í Ósló á sunnudagskvöldið og úrskurðaður í gæsluvarðhald á mánudag. Annar eldri mannanna tveggja var svo handtekinn á Gardermoen-flugvellinum norðaustur af Ósló.

Teygir málið anga sína víða um land og koma lögregluembætti í Agder, Rogaland og Ósló að rannsókn þess.

Eftir því sem Kripos greinir frá bárust lögreglu ábendingar um hvað til stæði frá aðila sem nú hefur stöðu vitnis í málinu og kveður Johansen lögmaður engin tengsl milli handteknu og þess sem var skotmark þeirra í málinu.

Verjendur yngri mannanna tveggja, sem handteknir voru, geta lítið tjáð sig um málið við fjölmiðla þar sem öll gögn málsins eru leynileg og verjendurnir því bundnir umfangsmeiri þagnarskyldu en almennt gerist í sakamálum.

Þekkir ekki til hinna handteknu

Yfirheyrslur eldri mannanna tveggja standa nú yfir, eftir því sem Jonas Fabritius Kristoffersen upplýsingafulltrúi Kripos greinir NRK frá og hefur rannsóknarlögreglan ekki tekið afstöðu til þess hvort gæsluvarðhalds yfir þeim verði krafist.

Inger Marie Sunde er réttargæslulögmaður þess sem ráðgert var að myrða. Segir hún í samtali við NRK að skjólstæðingur hennar sé barn sem blandast hafi í málið algjörlega án vitundar síns og vilja.

„Hann þekkir ekki til hinna handteknu og hefur sjálfur alls enga tengingu við afbrotamál. Ástæðan er óþekkt,“ segir Sunde við NRK.

NRK

NRK-II (hugðust láta til skarar skríða á fimmtudag)

TV2

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert