Þýska sambandsþingið samþykkti í dag umtalsverða breytingu á stjórnarskrá Þýskalands, sem heimilar Þjóðverjum að skuldsetja sig meira í þágu varnarmála.
Kristilegu flokkarnir CDU og CSU stóðu að breytingunum ásamt Sósíaldemókrataflokknum SPD og Græningjum, en þær fela í sér að hin svonefnda „skuldabremsa“, sem ætlað er að koma í veg fyrir að þýska ríkið skuldsetji sig um of, verður sett til hliðar þegar kemur að fjármögnun varnarmála og varnarinnviða á næstu tíu-tólf árum. Þá verður settur á fót sjóður upp á 500 milljarða evra til þess að styrkja innviði landsins, auk þess sem þrír milljarðar evra verða sendir til Úkraínu.
Alls greiddu 513 þingmenn atkvæði með stjórnarskrárbreytingunum og 207 gegn þeim. Náðu flokkarnir þrír þar með tilskyldum meirihluta, þar sem tveir þriðju þingheims verða að styðja stjórnarskrárbreytingar.
Friedrich Merz, leiðtogi CDU og verðandi Þýskalandskanslari, sagði í umræðum á þinginu að mauðsynlegt væri að styrkja Þýskaland vegna árása Rússa á Evrópu. „Þetta er stríð gegn Evrópu og ekki bara stríð um yfirráð yfir landsvæði Úkraínu,“ sagði Merz meðal annars.
Þá sagði hann að ekkert kæmi í stað sterkra tengsla við Bandaríkin, en ljóst væri að Evrópa þyrfti að gera meira til að tryggja sitt eigið öryggi, og þar ættu Þjóðverjar að vera í forystusæti.
Sagði Merz jafnframt að hin auknu útgjöld Þjóðverja til varnarmála yrði fyrsta stóra skrefið í átt að „nýju evrópsku varnarsamstarfi“, sem gæti einnig haft þjóðir, eins og Breta og Norðmenn, sem hvorugar eru í ESB innan sinna vébanda.
Boris Pistorius, fráfarandi varnarmálaráðherra SPD, sagði í umræðunum að hin auknu útgjöld til varnarmála væru réttlætanleg í ljósi þess að nú væri nýir tíma fyrir Evrópu, fyrir Þýskaland, fyrir NATO og fyrir kynslóðir framtíðarinnar. Þá myndi aukið framlag Evrópu til varna sinna treysta tengslin við Bandaríkin til lengri tíma.
Sambandsráðið, efri deild þingsins, mun fjalla um breytingarnar á föstudaginn.