Saksóknarar í Litháen hafa sakað leyniþjónustu rússneska hersins, GRU, um að bera ábyrgð á íkveikju í IKEA-verslun í Vilníus á síðasta ári, en saksóknararnir segja að þetta hafi verið hryðjuverk.
Um er að ræða eina af verslunum IKEA í Eystrasaltslöndunum, en þangað til síðasta haust voru það bræðurnir Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir sem voru eigendur þeirra. Seldu þeir reksturinn í ágúst til Inter IKEA Group eftir að hafa byggt upp rekstur í Eistlandi, Lettlandi og Litháen í 12 ár. Bræðurnir hafa um langt skeið átt rekstur IKEA á Íslandi, en í síðasta mánuði var greint frá því að Jón hefði keypt bróður sinn út úr þeim rekstri og væri nú einn eigandi IKEA á Íslandi.
Litháen hefur verið traustur bandamaður úkraínskra yfirvalda frá því Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022. Yfirvöld í Litháen hafa oft varað við tilraunum til skemmdarverka sem Rússar hafa staðið að baki.
Í gær sakaði ríkissaksóknari Litháens GRU um íkveikjuna sem átti sér stað í Vilníus í maí 2024. Engan sakaði í eldinum.
En saksóknarinn Arturas Urbelis sagði við blaðamenn: „Við lítum á þetta sem hryðjuverk sem hafði alvarlegar afleiðingar.“
Tveir úkraínskir ríkisborgarar voru grunaðir um IKEA-íkveikjuna, annar þeirra var handtekinn í Litháen og hinn í Póllandi, bætti Urbelis við.
„Það hefur verið staðfest að í gegnum röð milliliða [...] að skipuleggjendur þessa glæps eru í Rússlandi og þetta tengist leyniþjónustu hersins og öryggissveitum,“ sagði Urbelis enn fremur.
Kestutis Budrys, utanríkisráðherra Litháens, tók í svipaðan streng í færslu sem hann birti á X og sagði: „Eðli Kremlverja til að beita hryðjuverkum hefur verið staðfest enn og aftur. Það er ljóst við hvern við erum að eiga.“
Saksóknaraembættið segir að sá sem var handtekinn í Litháen hafi verið grunaður um að hafa farið til Póllands vorið 2024.
„Á leynifundi í Varsjá samþykkti hann og annar einstaklingur að kveikja í og sprengja verslunarmiðstöðvar í Litháen og Lettlandi fyrir 10.000 evrur,“ sagði í yfirlýsingu embættisins.
„Kveikt hefur verið í fleiri en einni stórverslun, og ekki aðeins í stórverslunum,“ sagði Urbelis þegar hann var spurður um hvort íkveikjan tengdist svipuðum málum í nágrannalandi Póllands.