Minnst tólf fórust í flugslysi í gær þegar lítil flugvél brotlenti í hafinu við flugtak á eyju í Karíbahafinu.
Vélin var á leið frá hondúrsku eyjunni Roatán, sem er vinsæll ferðamannastaður, og stefndi í átt að meginlandinu.
Vélin tók snögga beygju til hægri, skammt frá flugbrautinni, og endaði í hafinu. Er vélarbilun talin hafa orsakað slysið.
„Flugvélin brotlenti næstum því á okkur á meðan við vorum að veiða,“ sagði sjómaður við HCH-sjónvarpsstöðina.
Átján voru um borð í vélinni. Tólf fórust í slysinu, fimm komust lífs af en eins er enn saknað.