Leituðu skjóls í kjallara hótelsins

Undir hótelinu leituðu gestir hótelsins skjóls í loftvarnabyrgi sem komið …
Undir hótelinu leituðu gestir hótelsins skjóls í loftvarnabyrgi sem komið hefur verið upp á neðri hæð bílakjallarans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fólk særðist og hús skemmdust þegar Rússar gerðu atlögu að Kænugarði í gærkvöldi og í nótt, með stærðarinnar vélfyglum búnum sprengjum.

Rússar gerðu árásir víðar í Úkraínu og sendu samtals 145 árásardróna yfir landið, að því er vitað er, og sex skotflaugar úr sex mismunandi áttum, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti áttu langt símtal um stöðu mála.

Um helmingur drónanna var skotinn niður að sögn úkraínska flughersins.

Úti glumdu sprengingar

Ráðist var gegn miðborg höfuðborgarinnar einnig, sem nýtur aukinna loftvarna þar sem þar má finna fjölda mikilvægra bygginga.

Þar var einnig í gærkvöldi og nótt hópur íslenskra blaðamanna, sem lét sér duga að leita skjóls innar í byggingunni á meðan úti glumdu mestu sprengingarnar.

Undir hótelinu leituðu aðrir skjóls í loftvarnabyrgi sem komið hefur verið upp á neðri hæð bílakjallarans. Þar vermdi fólk rúm í nótt í stað sinna eigin á herbergjum hótelsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert