Myrti fjölskylduna og skipulagði árás á skóla

Nicholas Prosper myrti móður sína, bróður og systur í september …
Nicholas Prosper myrti móður sína, bróður og systur í september 2024. AFP

Nicholas Prosper, breskur unglingur sem myrti móður sína og systkini, hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi og þarf að sitja inni í að minnsta kosti 49 ár. Ásamt því að myrða fjölskyldu sína var Prosper að plana skólaskotárás sem hefði verið sú banvænasta á 21. öldinni ef hún hefði tekist.

Prosper, sem var 18 ára gamall þegar morðin voru framin, notaði haglabyssu til að myrða móður sína, systur sína sem var 13 ára gömul, og bróður sinn sem var 16 ára, en á honum voru einnig fleiri en 100 hnífstungusár.

Morðin áttu sér stað á heimili þeirra í Luton í Englandi í september á síðasta ári.

Vildi framkvæma banvænustu skotárás 21. aldarinnar

Er dómari málsins kvað upp dóm sinn beindi hann orðum sínum að Prosper og sagði hann hafa viljað frægð og verða þekktan eftir dauða sinn sem einn frægasti morðingi skólaskotárásar á 21. öldinni.

Er Prosper var handtekinn í september tjáði hann lögreglumönnum frá áætlun sinni, sem hann áætlaði að framkvæma föstudaginn 13. september, og sneri að því að hann myndi fara í barnaskóla og myrða fjögurra ára gömul börn ásamt tveimur kennurum og að lokum taka sitt eigið líf.

Var það markmið Prospers að framkvæma árás sem hefði verið banvænni en fjöldamorðin í Sandy Hook-árásinni, þar sem 20 börn og sex fullorðnir voru skotin til bana, og Virgina Tech-árásinni í Bandaríkjunum, sem er ein banvænasta skólaskotárás Bandaríkjanna, en þar voru 34 manns myrtir.

Áætlunin misfórst þegar móðirin vaknaði

Áætlun Prospers raskaðist hins vegar þegar móðir hans vaknaði áður en hann gat myrt fjölskyldu sína í svefni en hávaðinn frá átökum hans við móður sína vakti athygli nágranna sem hringdu á lögregluna.

Að sögn sérfræðinga sem lögðu mat á Prosper sýnir hann einkenni einhverfu en breytir það ekki lífstíðardómi hans, þar sem hann þarf að sitja að lágmarki 49 ár í fangelsi. Tekið var tillit til þess tíma sem Prosper hefur þegar afplánað og mun hann því sitja í fangelsi að minnsta kosti næstu 48 ár og 177 daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert