Yfirmaður Evrópusambandsins, Antonio Costa, segist öruggur um að Evrópuríki muni taka þátt í viðræðum um framtíð Úkraínu. Bandaríkin og Rússland þurfi ekki á Evrópusambandinu að halda til að geta átt í viðræðum og jákvætt sé að löndin tvö tali saman.
„Nágrannar Rússlands hafa auðvitað hvað mestar áhyggjur af Rússlandi, það segir sig sjálft. En það er fyrir öllu að allir átti sig á að þetta er sameiginleg ógn,“ sagði Costa.
Sem yfirmaður sambandsins hefur Costa það hlutverk að skapa einingu – hvort sem um ræðir varnir Evrópu eða samskipti yfir Atlantshafið – milli 27 ríkja með ólíka sögu, markmið og hagsmuni.
Viðræður leiðtoga um hvernig styðja má Úkraínu og styrkja varnir Evrópu munu fara fram í Brussel í vikunni.
„Undir forystu Frakklands og Bretlands erum við að undirbúa okkur undir að taka þátt í öryggisráðstöfunum til að viðhalda friði, ef og þegar hann verður,“ sagði Costa við blaðamann AFP.
Spurður hvort rökrétt sé að kaupa bandarískar F-35 orrustuvélar, en Bandaríkin geta þá komið í veg fyrir notkun þeirra ef þess gerist þörf, sagði Costa öll ríki átta sig á að ef eitthvað er keypt en ekki hægt að stjórna notkun þess, sé það vandamál.
„En við keppum ekki endilega við Bandaríkin. Landfræðileg forgangsröðun Bandaríkjanna er ekki lengur Evrópa heldur Kyrrahafið. Þeir eru að biðja Evrópuríki um að taka meiri ábyrgð á eigin vörnum, sem þýðir að Bandaríkjamenn skilja að við þurfum að þróa eigin varnargetu. Það er hagur beggja aðila.
Þess vegna væru það stór mistök að keppa við tolla og auka hættu á tollastríði. Ef þú vilt fjárfesta meiru, þá viltu ekki valda efnahagsvandamálum.“
Spurður hvort hann sjái Bandaríkin enn sem áreiðanlegan bandamann sagði hann samband Evrópu og Bandaríkjanna eiga sér djúpar rætur. Forystubreytingar á hvorri hlið Atlantshafsins muni ekki hafa áhrif á sambandið.
„Landfræðilegur snúningur Bandaríkjanna byrjaði ekki með Trump og það mun ekki enda með Trump. Þannig að Evrópa verður að gera það sem hún þarf að gera, óháð afstöðu Bandaríkjanna og Donalds Trumps.“
Spurður hvort símtal Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta sé áhyggjuefni svaraði Costa að hvorki Rússland né Bandaríkin þurfi á Evrópusambandinu að halda til að eiga í viðræðum. Bætti hann við að jákvætt væri að löndin tvö tali saman.
„Staða okkar er ljós: Það geta engar viðræður um Úkraínu átt sér stað án Úkraínu. Aðeins Úkraína sem fullvalda ríki getur ákveðið hvenær, hvernig og hve langt þessar viðræður ganga.
En ég trúi því að allir – sérstaklega Bandaríkin – skilja að spurningin er ekki aðeins um Úkraínu, heldur um öryggi Evrópu í heild.“
Vopnahlé í innrásarstríði Rússa í Úkraínu var til umræðu í símtali Trumps og Pútíns í gær.
Pútín samþykkti að gera 30 daga vopnahlé á árásum á orkuinnviði í Úkraínu sem starfsbræðurnir telja vegvísi að varanlegu vopnahléi. Þá munu samningaviðræður um varanlegt vopnahlé tafarlaust hefjast í Mið-Austurlöndum.
Þrátt fyrir þetta ómuðu loftvarnaflautur og sprengingar í Kænugarði í gærkvöldi.