Selenskí mun ræða við Trump í dag

Volidmír Selenskí Úkraínuforseti og Alexander Stubb Finnlandsforseti á blaðamannafundi í …
Volidmír Selenskí Úkraínuforseti og Alexander Stubb Finnlandsforseti á blaðamannafundi í morgun. AFP

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti mun ræða við Donald Trump Bandaríkjaforseta í dag þar sem næstu skref um vopnahlé á milli Rússlands og Úkraínu verða rædd. Þá hefur Selenskí einnig kallað eftir frekari aðstoð frá bandamönnum Úkraínu.

Selenskí er nú staddur í Finnlandi þar sem hann hefur fundað með Alexander Stubb, forseta Finnlands, en nú fer fram sameiginlegur blaðamannafundur starfsbræðranna.

Segir Bandaríkin eiga að hafa eftirlit með vopnahléinu

Trump og Vladimír Pútín Rússlandsforseti munu eiga samtal í dag um vopnahléið og segist Selenskí munu fá upplýsingar um það samtal þegar hann ræðir við Trump síðar í dag.

Þá segir hann Bandaríkin eiga að hafa eftirlit með vopnahléinu, sem Úkraína hefur þegar samþykkt.

Verður að vera vopnahlé án skilyrða

Pútín samþykkti í gær, eftir samtal við Trump, að láta af árásum á orkuinnviði í Úkraínu. Töldu þeir Pútín og Trump að vopnahléið á orkuinnviðum væri vegvísir að varanlegu vopnahléi. Stuttu eftir samtal þeirra gerði Rússland loftárás á Kænugarð, höfuðborg Úkraínu.

Alexander Stubb Finnlandsforseti sagði á blaðamannafundinum að ef Rússland vilji ná raunverulegum friði þurfi landið að samþykkja vopnahléstillögu Bandaríkjanna án skilyrða, líkt og Úkraína hefur gert.

„Það eru aðeins tvær leiðir til að bregðast við tillögu forseta Bandaríkjanna. Það er já eða nei, en engin skilyrði,“ segir Stubb.

Eigi frekar að auka aðstoðina

Þá kallaði Selenskí eftir auknum stuðningi frá bandamönnum Úkraínu en ummælin koma í kjölfar þess að Pútín hefur krafist þess að Vesturlönd hætti að veita Úkraínu hernaðar- og leyniþjónustustuðning.

„Ég tel að við ættum ekki að gera neinar málamiðlanir í sambandi við aðstoð við Úkraínu, heldur ætti frekar að auka aðstoðina,“ segir Selenskí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert