Varnarmálaráðherra Þýskalands mun ráðfæra sig við æðstu hershöfðingja landsins um öryggismál sem tengjast bandarískum vopnakerfum, sérstaklega F-35 orrustuþotum. samkvæmt skýrslu í innlendu dagblaði á fimmtudag.
Frá þessu greinir þýska blaðið Süddeutsche Zeitung.
Mörg Evrópuríki eru nú að endurskoða þörf sína fyrir bandarískum vopnum og tækni í kjölfar ummæla Trump Bandaríkjafoseta sem hafa varpað skugga á samstarf Bandaríkjanna og Evrópu.
Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, hyggst ráðfæra sig við hátt setta hershöfðingja, sérfræðinga ráðuneytisins og innkaupafulltrúa, að því er segir í umfjöllun blaðsins.
Þar mun áherslan vera á bandarísk vopnakerfi sem þýski herinn notar nú þegar eða hefur pantað. Þjóðverjar hafa t.d. pantað 35 F-35 orrustuþotur frá Bandaríkjunum, en menn hafa nú áhyggjur af því að bandarísk stjórnvöld geti hugsanlega haft stjórn á þotunum.
Sérfræðingar hafa lýst yfir áhyggjum varðandi flutning á nauðsynlegum varahlutum til landsins og þá hafa aðrir áhyggjur af því að svokallaður„drápsrofi“ geti mögulega verið innbyggður í herþoturnar, sem gefi bandarískum yfirvöldum kleift að ráða því hvort vélarnar hefji sig til flugs eður ei.
Carlo Masala, stjórnmálafræðingur við Bundeswehr-háskólann í München, segir í samtali við blaðið að flugvélarnar séu atriði sem hægt sé að þrýsta á í samskiptum ríkjanna, óháð því hvort einhver drápsrofi sé í þeim.
„Vandamálið með F-35 snýst frekar um gagnasendingar og varahluti,“ sagði hann.
„Ef það er ekki til staðar þá glatar F-35 miklu af virkni sinni [...] Ef skorið er á það þá er það vandamál.“