Tíu eru særðir, þar af fjögur börn, eftir að Rússar gerðu umfangsmikla árás á Kírovóhrad-hérað í Úkraínu, sem liggur í miðju landinu og suður af höfuðborginni Kænugarði.
Alls settu Rússar á loft nærri 200 sjálfseyðandi sprengjudróna af gerðinni Shahed og tálbeitudróna.
Skemmdir eru á innviðum, heimilum og kirkju.
Frá þessu greinir Volodimír Selenskí Úkraínuforseti á X.
Selenskí þakkar viðbragðsaðilum og þeim sem starfa á gólfinu við að minnka skaðann af rússneskum hernaði í Úkraínu.
„Þrátt fyrir áróður Rússa hætta árásir þeirra á Úkraínu ekki,“ ritar forsetinn á X.
Segir hann hverja árás ljóstra upp um hið raunverulega viðhorf Rússa gagnvart friði.
„Nú sem áður – jafnvel á erfiðustu tímum, getur fólkið okkar treyst á neyðarviðbragð viðbragðsteyma ríkisins, lögreglu, sjúkraliða, viðgerðarmanna, og allra þeirra sem hjálpa til við að hreinsa rústir, slökkva elda, gera við, og síðast en ekki síst bjarga og verja líf,“ skrifar Selenskí.
„Við þökkum þeim sem eru ávallt á vakt, í framlínunni að bjarga mannslífum.“