Óslóarbúar nota mest kókaín allra Skandinava

Óslóarbúar nota mest kókaín allra Skandinava.
Óslóarbúar nota mest kókaín allra Skandinava. Ljósmynd/Drugabuse.com

Kókaínnotkun Óslóarbúa hefur þrefaldast á fjórum árum og kemst nú ekkert sveitarfélag í Skandinavíu með tærnar þar sem Óslóarbúar hafa hælana í neyslu efnisins.

Þetta leiðir efnagreining á afrennslisvatns frá heimilum og vinnustöðum í ljós og mælist efnið þá í þvagi sem borgarbúar sturta niður úr salernum sínum. Í fyrra greindu til þess bærar stofnanir afrennslisvatn í 120 evrópskum borgum og bæjum. Í Noregi urðu Ósló, Bergen og Þrándheimur fyrir valinu.

Við greininguna var leitað eftir kannabis, amfetamíni, nikótíni, vínanda, heróíni, ketamíni, kókaíni, MDMA og metamfetamíni.

„Við erum að tala um nanógrömm“

Í Noregi reyndist aukning í notkun kókaíns mest, langmest í höfuðborginni en Bergen fylgir í kjölfarið. Þrándheimsbúar reyndust hins vegar mun hófstilltari. Tölurnar fyrir Ósló eru sambærilegar fyrri mælingum frá 2018, '19 og '20. Við könnunina sem hér segir af hafði neyslan 2,8 faldast frá fyrri könnunum.

Tonje Gottenberg Skaalvik hafði veg og vanda af greiningunum í Noregi, en meðal þess sem greina þurfti var hvort efnin hefðu farið í gegnum mannslíkama eða bara verið hent í salernið.

„Magnið er ekki mikið, við erum að tala um nanógrömm,“ segir Skaalvik af greiningarvinnunni sem hún kveður geta gefið nokkuð nákvæmar upplýsingar um neyslu á hverjum stað. Niðurstöðurnar gefa þó engar upplýsingar um kyn eða aldur neytenda né hve margir neyti efna í hverjum bæ eða borg. Sveiflur í neyslu milli daga sjást hins vegar mjög vel.

Grípa þurfi til tafarlausra aðgerða

Linda Granlund, sviðsstjóri norska Heilbrigðiseftirlitsins, Helsedirektoratet, kveður tölurnar áhyggjuefni og kveðst í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK vera með böggum hildar. Grípa þurfi til tafarlausra aðgerða til að draga úr neyslu kókaíns með fræðslu um hættueiginleika efnisins.

Engu að síður neita 95 prósent aðspurðra Norðmanna í könnun sem náði til 16 til 30 ára að hafa neytt kókaíns.

NRK

NRK-II (klóakið segir allt)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert