Rússar lýsa yfir neyðarástandi eftir árás á flugvöll

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Úkraínuher gerð í nótt loftárás á Engels-flugvöllinn í Saratóva-héraði Rússlands. Úkraínsk stjórnvöld hafa staðfest árásina í yfirlýsingu.

Árásin er sögð sú umfangsmesta á flugvöllinn frá upphafi stríðsins. Er vopnageymsla Rússa við flugvöllinn meðal annars sögð hafa verið skotmark úkraínska hersins.

„Hernaðaraðstaðan er notuð af flugher hernámsríkisins, sérstaklega í þeim tilgangi að gera árásir á úkraínsk yfirráðasvæði og fyrir hryðjuverkaárásir gegn friðsælli þjóð,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar kemur einnig frá að eldsvoði og sprengingar hafi sést í nágrenni flugvallarins.

Tveir særðir

Rússneskir miðlar greina frá því að rússnesk stjórnvöld hafi lýst yfir neyðarástandi á svæðinu vegna árásarinnar. Hafa íbúar í nágrenni flugvallarins rýmt heimili sín.

Minnst tveir eru sagðir hafa særst. Þá skemmdust gluggar á spítala, skóla og tveimur leikskólum vegna sprenginga.

Umfangsmiklar árásir í nótt

Stjórn­völd í Úkraínu segja Rússa hafa ráðist á Úkraínu með 171 árás­ar­dróna í nótt.

Einn lést í árásum Rússa í Donetsk-héraðinu. Nokkrir til viðbótar eru særðir, þar af fjögur börn.

Í yfirlýsingu rússneska varnarmálaráðuneytisins í morgun kom fram að loftvarnakerfi hefðu eyðilagt „132 ómönnuð úkraínsk loft­för í nótt“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert