Sturgeon hreinsuð af ásökunum um fjársvik

Nicola Sturgeon.
Nicola Sturgeon. AFP

Nicola Sturgeon, fyrrverandi forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, hefur verið hreinsuð af ásökunum um fjármálamisferli í kjölfar rannsóknar á fjármálum Skoska þjóðarflokksins (SNP) sem hefur staðið yfir lengi. Frá þessu greinir skoska lögreglan.

Fyrrverandi eiginmaður hennar hefur aftur á móti mætt fyrir dómara til að svara til saka vegna ákæru um fjárdrátt.

Sturgeon, sem er fyrrverandi leiðtogi SNP, og Colin Beattie, sem var gjaldkeri flokksins, voru bæði handtekin árið 2023 en þau voru aftur á móti aldrei ákærð.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni segir að rannsókn málsins, sem sneri að fjármálum SNP, hafi nú verið til lykta leidd.

Lögreglan nefnir ekki nöfn þeirra Sturgeon og Beattie í yfirlýsingunni heldur segir að 73 ára gamall maður hafi verið handtekinn 18. apríl 2023 og 54 ára gömul kona 11. júní sama ár. Tekið er fram að þau hafi ekki verið ákærð og séu ekki lengur til rannsóknar.

Peter Murrell, fyrrverandi eiginmaður Sturgeon, er fyrrverandi framkvæmdastjóri SNP. Hann mætti fyrir dóm í Edinborg í dag þar sem hann hefur verið ákærður í tengslum við meintan fjárdrátt.

Sturgeon tilkynnti fyrr á þessu ári að þau hefðu ákveðið að skilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert