Tíu fórust í árásum Ísraelshers í nótt

Húsarústir í Khan Yunis í suðurhluta Gasasvæðisins.
Húsarústir í Khan Yunis í suðurhluta Gasasvæðisins. AFP/Bashar Taleb

Viðbragðsaðilar á Gasa segja minnst tíu hafa fallið í árásum Ísraelshers í nótt skammt frá borginni Khan Yunis.

Ísraelsher tilkynnti í gær að hann hefði hafið landhernað á Gasa að nýju um miðbik Gasasvæðisins og í suðurhluta þess. 

Ísraelsk stjórnvöld hafa hunsað ákall alþjóðasamfélagsins um að láta af árásum á Gasasvæðið og virða vopnahléssamkomulagið.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur heitið því að halda árásunum áfram uns Hamas hefur sleppt öllum gíslunum úr haldi sem teknir voru í hryðjuverkunum 7. október.

Hafa þeir gefið út „lokaviðvörun“ til Hamas um að skila gíslunum.

Grafa eftir líkum ástvina í rústum

Frá því að vopnahléinu lauk í byrjun þessarar viku hafa Palestínumenn enn og aftur þurft að leita að ástvinum sínum undir rústum bygginga eftir árásir Ísraelshers.

„Við erum að grafa með berum höndum,“ segir maður sem reynir að losa lík barns undan steypurústum á Gasa, í samtali við blaðamann AFP.

Fjölskyldur á Gasa reyna nú að flýja þau svæði sem Ísraelsher hefur hvatt fólk á Gasasvæðinu að rýma.

„Við finnum hræðsluna í andrúmsloftinu og við sjáum sársaukann og hvað fólk er niðurbrotið á andlitum þeirra sem við erum að hjálpa,“ segir Fred Oola, yfirlæknir hjá Rauða krossinum á svæðisspítala í Rafah.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert