Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ritað undir forsetatilskipun sem fyrirskipar lokun menntamálaráðuneytis Bandaríkjanna.
Skref sem repúblikanar hafa lengi talað fyrir að verði tekið, þ.e. að alríkið hætti afskiptum af rekstri skóla á vegum ríkjanna.
„Við ætlum að loka því, loka því eins fljótt og unnt er. Það gerir okkur ekkert gott. Við viljum færa nemendurna aftur til ríkjanna,“ sagði Trump er hann undirritaði tilskipunina í Hvíta húsinu í gær.
Við undirritunina var hópur skólabarna mættur ásamt nokkrum þingmönnum Repúblikanaflokksins.
Chuck Schumer, helsti leiðtogi demókrata í bandarísku öldungadeildinni, gagnrýndi ákvörðun forsetans harðlega. Sagði hana bæði eyðileggjandi og ömurlega.
„Þessi hræðilega ákvörðun Donalds Trumps mun bitna á kennurum, foreldrum, skólaleiðtogum og gæði þeirrar menntunar sem börnin okkar fá,“ sagði Schumer.
Kallaði hann eftir því að dómstólar myndu bregðast við.
„Það hljómar skringilega, er það ekki? Menntamálaráðuneyti – við ætlum að leggja það niður,“ sagði Trump.
Ákvörðunin er háð samþykki þingsins, sem þykir ólíklegt að fáist. En fari svo að þingið hafni tilskipuninni hefur Trump völd til að gera ráðuneytið nánast óstarfhæft.
Repúblikanar hafa löngum haft horn í síðu ráðuneytisins og haldið því fram að það sé uppspretta svokallaðrar „woke-hugmyndafræði“, inngildingar og fjölbreytnihugsjóna. Þá sé það bandamaður verkalýðsfélaga barna.