Rafmagnsleysið sem leiddi til lokunar Heathrow-flugvallar í London var vegna skipulagsmistaka af hálfu flugvallarins.
Þetta segir Willie Walsh, yfirmaður Alþjóðasamtaka flugfélaga, á X.
Furðar hann sig á því að flugvöllurinn virðist aðeins treysta á einn orkugjafa án varakosts og segir að ef svo er raunin þá sé um augljósan brest á skipulagi að ræða.
Flugvöllurinn, sem er sá fjölfarnasti í Bretlandi og Evrópu, verður lokaður í allan dag eftir að eldur sem braust út á orkustöð skammt frá vellinum olli rafmagnsleysi.
Flugmálayfirvöld eiga von á því að lokunin valdi miklum truflunum næstu daga. Mun lokunin bitna á hundruðum flugferða og þúsundum farþega.