America Pac, herferðarhópur Elon Musks, segist munu gefa kjósendum í Wisconsin-ríki 100 dollara, eða rúmlega 13.000 krónur, setji þeir nafn sitt á undirskriftarlista sem er gegn aðgerðasinnuðum dómurum.
Herferðarhópurinn var stofnaður til að styðja við Donald Trump Bandaríkjaforseta í kosningunum vestanhafs á síðasta ári.
Þá fá kjósendur sömu upphæð í hvert skipti sem þeir vísa á aðra sem einnig setja nafn sitt á listann.
Eru kjósendur hvattir til að skrifa undir fyrir 1. apríl, en þá verður kosinn nýr hæstaréttardómari í ríkinu.
Hafa alríkisdómarar í Bandaríkjunum gert Trump erfitt fyrir að koma stefnumálum sínum í gegn síðan hann tók við embætti forseta.
T.a.m. bannaði alríkisdómarinn James E. Boasberg Trump-stjórninni að notast við tvö hundruð ára gömul stríðslög til að senda útlendinga úr landi 15. mars. Þrátt fyrir það sendu Bandaríkin rúmlega 200 meinta glæpamenn til El Salvador.
Á þriðjudag kallaði Trump Boasberg m.a. vandræðagemling og æsingamann.
Styður America Pac við íhaldssama frambjóðandann Brad Schimel í kosningunni um dómarasætið.
„Dómarar ættu að túlka lög eins og þau eru skrifuð, ekki endurskrifa þau svo þau henti þeirra persónulegu eða pólitísku stefnum,“ skrifar herferðarhópurinn í færslu á X.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hópurinn býður kjósendum peninga fyrir undirskrift en sérfræðingar hafa talið að slíkt útspil sé ólöglegt.