Erfið staða á Heathrow

Slökkviliðsmenn að störfum eftir að eldur kviknaði í orkustöð sem …
Slökkviliðsmenn að störfum eftir að eldur kviknaði í orkustöð sem sér um að útvega vellinum rafmagn. AFP

Talsmenn Heathrow-flugvallar á Bretlandi hafa sagt að þeir hafi ekki skýra mynd af því hvenær rafmagn verður komið aftur á í dag. Ljóst sé að flugvöllurinn verði lokaður til klukkan 23:59 í kvöld.

Vellinum var lokað í dag eftir að eldur kviknaði í North Hyde-rafstöðinni í Hayes, sem er í Vestur-London. Það varð til þess að rafmagni sló út til Heathrow sem og annarra fyrirtækja og heimila á nærliggjandi svæðum.

Farþegar sem áttu bókað flug í dag í gegnum Heathrow …
Farþegar sem áttu bókað flug í dag í gegnum Heathrow þurfa að leita annarra leiða til að komast á milli staða. AFP

Orsökin liggur ekki fyrir en neyðarþjónusta var fyrst kölluð á vettvang klukkan 23:23 að staðartíma í gærkvöldi.

Ed Miliband, orkumálaráðherra Bretlands, sagði í samtali við BBC að eldurinn hefði einnig virst hafa slegið út varaaflagjafa.

Talsmenn flugvallarins segja að von sé á frekari tilkynningu um stöðuna í dag en ljóst sé að það verði veruleg röskun á starfsemi vallarins næstu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert