Gatwick-flugvöllurinn á Englandi hyggst taka á móti hluta af þeim flugvélum sem áttu að lenda á Heathrow-flugvelli sem nú er lokaður.
Eldur kviknaði í tengivirki skammt frá Heathrow og olli rafmagnsleysi.
120 flugvélar höfðu þegar tekið á loft og stefndu í átt að Heathrow þegar flugvöllurinn tilkynnti lokunina. Samkvæmt vefsíðunni FlightRadar24 mun lokunin hafa áhrif á minnst 1.351 flugferð til og frá flugvellinum.
Tveimur flugferðum frá Keflavíkurflugvelli til Heathrow hefur verið aflýst.
Heathrow- og Gatwick-flugvellirnir eru báðir í grennd við Lundúnir, höfuðborg Englands.
„Við erum meðvituð um stöðuna á Heathrow-flugvellinum í dag og erum að veita þann stuðning sem nauðsynlegur er,“ segir í tísti flugvallarins.
Þá kemur fram að starfsemi Gatwick-flugvallar haldist óbreytt í dag.