Hraðbanki nokkur í Grønland-hverfinu í Ósló olli straumhvörfum í fíkniefnasölu og ofbeldi þegar hann var einfaldlega fjarlægður á dögunum, enda hafði þá komið í ljós við eftirgrennslan borgaryfirvalda að bankinn var aldrei löglega staðsettur þar sem hann stóð.
Grønland-hverfið er með þeim litríkari í norsku höfuðborginni. Ægir þar saman menningarstraumum frá öllum heiminum, innflytjendur reka matvöruverslanir og framandi veitingastaði, Akers-áin rennur þar í gegn og setur svip sinn á hverfið, þar er ein stærsta moska Óslóar og fjölbreytileiki eins borgarhverfis í Noregi verður líkast til ekki meiri.
En Grønland líður einnig fyrir hæstu glæpatíðni í Ósló þótt almennt sé ekki hættulegt að ganga þar um götur, fíkniefnasala er þar einna mest í borginni eftir að hin annálaða „Plata“, öðru nafni Christian Frederiks plass, skammt frá aðalbrautarstöðinni Oslo S, lagðist af sem fíkniefna- og einkum heróínmarkaður Óslóar og salan færðist að miklu leyti inn í hverfin Grønland og Grünerløkka.
Nánasta umhverfi hraðbanka á þessum stærstu markaðssvæðum fíkniefna í Ósló hafa smám saman orðið mjög viðsjárverð, rán og líkamsárásir verið þar tíð og önnur óáran. Síðustu ár hefur hraðbönkum í borginni fækkað mjög vegna þverrandi notkunar reiðufjár og er nú svo komið að stór alþjóðleg einkafyrirtæki sem tengjast ekki norsku bönkunum halda mörgum hraðbankanna úti, svo sem Euronet og Loomis.
Er farið var að rýna í leyfismál á bak við hraðbankann, sem hér segir af, kom í ljós að aldrei hafði verið sótt um leyfi fyrir að setja hann upp á þessum tiltekna stað. Það leyfi hefði Skipulags- og byggingarstofnun Óslóar átt að gefa út, en þar á bæ var enginn spurður og ekki sótt um neitt leyfi.
Var bankanum því lokað í skyndi og við það hrundi glæpatíðni í nokkur hundruð metra radíus, ránum og líkamsárásum snarfækkaði og ró færðist yfir þennan hluta Grønland sem gleður Lasse Johnsen yfirlögregluþjón ósegjanlega.
„Þetta er svæði sem fólk hefur kvartað yfir að það upplifi sig óöruggara á en annars staðar í borginni,“ sagði Johnsen í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í desember er hið róstursama umhverfi hraðbankans var til umræðu. Þá hafði lögregla borgarinnar farið þess á leit að nokkrir hraðbankar í borginni yrðu lagðir af.
„Rán, ofbeldi og óeirð ríkir við hraðbankana, sérstaklega á þeim svæðum þar sem glæpatíðnin er hve hæst,“ sagði yfirlögregluþjónninn enn fremur og kveðst í viðtali við NRK nú í dag fagna þessu framtaki af öllu hjarta.
Bartek Szczesniak, arkitekt hjá arkitektastofunni Ramme Arkitekter, en stofan stóð á sínum tíma að umsókn um rekstrarleyfi fyrir hraðbankann umdeilda, er hvorki ánægður með framgöngu lögreglunnar né Óslóarborgar í málinu.
„Ég tel þetta rangt mat. Hér er ekkert tillit tekið til þess að fólk þurfi um langan veg að fara til þess að taka út reiðufé,“ segir arkitektinn við NRK. Engu að síður reiknar hann ekki með að stofan leggi fram kæru vegna brotthvarfs bankans. „Það yrði þungur róður með miklum kostnaði. Slíkt yrði bara stríð við yfirvöld,ׅ“ segir arkitektinn.
Lögreglan kveðst öngvan veginn vilja fjarlægja alla hraðbanka af götum borgarinnar, hins vegar þurfi þeir sem standi á miðjum athafnasvæðum sölumanna fíknilyfja einfaldlega að víkja.