Heathrow-flugvöllur lokaður út daginn

Eldurinn olli því að rafmagnslaust varð á flugvellinum.
Eldurinn olli því að rafmagnslaust varð á flugvellinum. AFP

Alþjóðaflugvöllurinn Heathrow á Englandi verður lokaður í allan dag eftir að eldur sem braust út skammt frá vellinum olli rafmagnsleysi.

Flugvöllurinn er sá fjölfarnasti í Bretlandi og Evrópu.

Flugmálayfirvöld eiga von á því að lokunin valdi miklum truflunum næstu daga. Mun lokunin bitna á hundruðum flugferða og þúsundum farþega.

120 vélar voru á leið til Heathrow

Í tilkynningu á heimasíðu flugvallarins segir að til að tryggja öryggi farþega og starfsmanna verði flugvöllurinn lokaður til klukkan 23.59 í kvöld.

Farþegum er ráðlagt frá því að ferðast til flugvallarins. Er þeim sagt að hafa samband við flugfélagið sitt fyrir frekari upplýsingar.

Samkvæmt vefsíðunni FlightRadar24 mun lokunin hafa áhrif á minnst 1.351 flugferð til og frá flugvellinum. Voru 120 flugvélar í loftinu sem stefndu á Heathrow þegar lokunin var tilkynnt.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Isavia hefur tveimur flugferðum til Heathrow verið aflýst í dag, annars vegar með Icelandair klukkan 7.35 og hins vegar með British Airways klukkan 11.45.

Ekki er búið að aflýsa flugferðum félaganna til Heathrow síðar í dag. Samkvæmt vefsíðu Isavia eru þau enn á áætlun.

Eldur í tengivirki

Slökkvilið Lundúna segir að mikill eldur hafi kviknað í tengivirki við bæinn Hayes sem olli rafmagnsleysinu.

Tíu dælubílar og sjötíu slökkviliðsmenn börðust við eldinn.

Þurftu um 150 íbúar að rýma húsin næst tengivirkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert