Skuggaflotafley kyrrsett

Eventin hefur legið í lamasessi úti fyrir Ré frá ársbyrjun …
Eventin hefur legið í lamasessi úti fyrir Ré frá ársbyrjun og hafa þýsk stjórnvöld nú kyrrsett skipið sem talið er tilheyra alræmdum skuggaflota Rússa. AFP/Samgönguslysanefnd Þýskalands

Þýsk stjórnvöld greindu frá því í dag að þau hefðu kyrrsett gamalt olíutankskip sem talið er tilheyra hinum svokallaða „skuggaflota“ Rússa og hefur legið við festar við þýsku eyjuna Ré í Eystrasalti (þýs. Rügen) síðan í janúar er það varð vélarvana úti fyrir ströndum eyjarinnar.

Greindi þýska vikuritið Der Spiegel frá því að þýska tollgæslan hefði lagt hald á skipið og farm þess, þótt embættismenn hafi neitað að staðfesta það og sagt að ekki hafi verið „gengið lögformlega frá tollamálum enn þá“.

Fram kemur að þýsk yfirvöld hafi kyrrsett tankskipið, sem ber nafnið Eventin og siglir undir fána Panama, en farmur þess er sagður 40 milljóna evra virði, sem jafngildir tæplega 5,8 milljörðum íslenskra króna. Leggja Þjóðverjar nú á ráðin um hvar og hvernig olíubirgðum tankskipsins verði best landað án umhverfisóhappa og hvað verði um skipið sjálft.

Notað til sniðgöngu viðskiptabanns

„Tollgæslan vinnur nú að afgreiðslu sinna mála og að teknu tilliti til öryggismála getum við ekki tjáð okkur að neinu ráði um málið,“ sagði talsmaður þýska fjármálaráðuneytisins í dag.

Talsmaður utanríkisráðuneytisins brigslaði Rússum hins vegar um að nota skip af þessu tagi, gömul tankskip sem talin eru meginuppistaða skuggaflotans áðurnefnda, til að sniðganga viðskiptabann gagnvart Rússlandi og fjármagna með þeim hætti ólögmætt innrásarstríð sitt við Úkraínumenn.

Síðarnefndi talsmaðurinn, Sebastian Fischer, sagði Þýskaland og Evrópusambandið „vinna myrkranna á milli við að koma á frekari viðskiptaþvingunum gegn rússneska skuggaflotanum.

Á lista yfir skuggaflotaför

Greinendur á sviði öryggismála segja Rússa gera út hundruð skipa til að brjóta gegn viðskiptaþvingunum vestrænna ríkja gegn Rússlandi vegna Úkraínustríðsins.

Tankskipið Eventin var á leið frá rússneskri höfn til Egyptalands þegar bilun í vélum þess varð til þess að ekki var unnt að stýra för þess og hefur það því lónað úti fyrir Ré síðan í byrjun árs.

Evrópusambandið hefur sett nafn skipsins á lista yfir skip sem tilheyra rússneska skuggaflotanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert