Stjórnvöld í Kína kynntu í dag aðgerðir til þess að einfalda hjónavígsluferlið og draga úr fjárhagslegum byrgðum para. Aðgerðirnar eru liður í áætlun stjórnvalda til þess að auka fæðingartíðni á ný.
Sjaldgæft er að pör eignist börn utan hjónabands í Kína vegna samfélagslegra fordóma.
Nú þegar hafa stjórnvöld sett af stað fjárhagslega hvata og heitið að byggja upp dagvistunarúrræði barna til þess að bregðast við vandanum.
Nýjustu aðgerðirnar leyfa pörum að skrá hjónavígsluna þar sem þau búa. Áður hafa pör þurft að ferðast til þess staðar sem þau eru skráð í þjóðskrá landsins til þess að skrá hjónabandið.
Þannig hefur par sem bjó í höfuðborginni ekki getað gift sig þar ef þau komu frá ólíkum landshlutum.
Hjónavígslum fækkaði um fimmtung í fyrra og þá fækkaði þjóðinni þriðja árið í röð.
Innanríkisráðuneytið ætlar að taka afstöðu gegn „ákveðnum skaðlegum siðum eins og háum heimanmund og óþarfa útgjöldum í tengslum við brúðkaupið“.
Í Kína tíðkast að fjölskylda brúðgumans gefi tilvonandi eiginkonu peningagjöf, eða heimanmund.
Litið er á gjöfina sem virðingarvott tengdaforeldranna og framlag þeirra til framtíðar hjónanna. Kostnaðurinn getur hins vegar verið gríðarmikill.