Frans páfi fer heim á morgun

Frans páfi verður útskrifaður af sjúkrahúsi og kemst til síns heima í Vatíkaninu á morgun. Þar tekur við að minnsta kosti tveggja mánaða endurhæfing. 

Páfinn er 88 ára gamall og hefur dvalið á Gemelli-sjúkrahúsinu í Róm frá 14. febrúar vegna lungna­bólgu í báðum lung­um.

Vatíkanið greindi frá því að páfinn hyggðist blessa og veifa til þeirra sem koma fyrir utan sjúkrahúsið á morgun. 

Sergio Alfieri læknir greindi frá því að páfinn þyrfti langan tíma til þess að jafna sig, að minnsta kosti tvo mánuði.

Hann sagði betra fyrir Frans að fara í gegnum endurhæfingu heima hjá sér til þess að koma í veg fyrir sýkingar sem geta leynst á sjúkrahúsinu. 

Annar læknir sjúkrahússins, Luigi Carbone, sagði heilsu páfans fara batnandi og að vonir stæðu til þess að hann gæti sinnt störfum sínum fljótlega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert