Bandarísk stjórnvöld tilkynntu í gær að þau hyggjast draga til baka dvalarleyfi hjá hálfri milljón einstaklinga. Fólkið mun í kjölfarið hafa örfáar vikur til þess að yfirgefa Bandaríkin.
Tilskipunin hefur áhrif á 532.000 manns sem komu til landsins í stjórnartíð Joe Biden vegna sérstakra aðgerða sem Biden greip til árið 2022 til þess að flytja einstaklinga til Bandaríkjanna frá löndum sem ekki eru talin virða mannréttindi.
Þessir aðilar munu missa öll sín réttindi mánuði eftir að tilskipunin verður lögfest nema þeir fái dvalarleyfi á einhvern annan máta. Baráttusamtök fyrir réttindum innflytjenda í Bandaríkjunum hafa hvatt þá sem tilskipunin hefur áhrif á til þess að leita sér aðstoðar hjá lögmönnum.
Þeir innflytjendur sem munu þurfa að yfirgefa Bandaríkin samkvæmt tilskipuninni eru frá Kúbu, Haíti, Níkaragva og Venesúela. Biden heimilaði frá því í lok árs 2022 þrjátíu þúsund einstaklingum í hverjum mánuði að fá dvalarleyfi í Bandaríkjunum vegna þeirra mannréttindabrota sem eiga sér stað í þessum löndum.
Karen Tumlin, leiðtogi Justice Action Center-samtakanna, telur að stjórnvöld séu með því að draga dvalarleyfin til baka að brjóta í bága við skuldbindingar sínar gagnvart þeim hundruðum þúsunda aðila sem komu til landsins vegna aðgerða Biden.
Fulltrúi innanríkisöryggismáladeildar ríkisins (e. Department of homeland security) hefur sagt að aðgerðir Biden hafi aðeins haft tímabundið gildi og því sé ekkert því til fyrirstöðu að draga dvalarleyfin til baka.