Landamæri kljúfa bókasafn

Haskell-bókasafnið þverar landamæri Bandaríkjanna og Kanada og nú verður ekki …
Haskell-bókasafnið þverar landamæri Bandaríkjanna og Kanada og nú verður ekki lengur frjáls umferð yfir landamærin innan byggingarinnar þar sem nágrannaríkin tvö elda grátt silfur í tollamálum. Ljósmynd/Wikipedia.org/Srinivasan Ramaswarmy

Sú ákvörðun bandarískra stjórnvalda að takmarka aðgang Kanadabúa að bókasafninu Haskell Free Library and Opera House í Derby Line í bandaríska ríkinu Vermont hefur vakið sterkar tilfinningar Kanadamegin.

Kveða bæjaryfirvöld í Stanstead í kanadíska fylkinu Quebec yfirvöld Bandaríkjamegin hafa einhliða tekið þá ákvörðun að loka „helsta aðgangi Kanadabúa“ að bókasafninu sem byggt er í stíl Viktoríutímabilsins og teygir sig yfir landamæralínu Bandaríkjanna og Kanada.

Á hvörmum Penny Thomas, sem ók frá Newport í Vermont, glitra tár þar sem hún stendur við hlið bókasafnsins og ber skilti með upplýsingum um úrskurðinn sem kveðinn var upp í Derby í gær, föstudaginn 21. mars.

Hundrað ára samkomulag úr sögunni

Í rúmlega öld hefur íbúum Stanstead verið frjálst að fara um þann hluta bókasafnsins sem liggur innan yfirráðasvæðis Vermont Bandaríkjamegin án þess að framvísunar vegabréfs sé krafist til að ganga yfir í þann hluta hússins sem formlega liggur innan bandarískrar lögsögu.

Á föstudaginn var sá úrskurður hins vegar gerður heyrumkunnur að þetta hundrað ára gamla óskrifaða samkomulag heyrði nú sögunni til. Grannríkin tvö hafa undanfarið troðið illsakir vegna tollamála og ákvarðana Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á þeim vettvangi og hafa endalok bókasafnssamkomulagsins leyst miklar tilfinningar úr læðingi beggja vegna landamæranna svo sem sjá má af blómapottum sem raðað hefur verið upp við landamæralínuna.

Á þessu bókasafni, sem haft hefur verið sem táknmynd alþjóðlegra vinatengsla, féllust Kanadamaðurinn Pauline Lussier og Bandaríkjamaðurinn Chris Blais, starfsmenn safnsins hvor í sínum þjóðarhelmingi þess, í faðma þar sem þeir stóðu hvor sínu megin við línu sem gerð hafði verið með límbandi á gólfið til að tákna landamærin þar innanhúss sem nú hafa verið tekin upp samkvæmt nýjum reglum.

„Það mun allt breytast núna“

„Lína aðskilur okkur ekki, það hefur hún aldrei gert,“ sagði Blais sem bar bandaríska fánann í hendi á meðan Lussier hélt á þeim kanadíska.

„Börn okkar hafa gengið fram og til baka yfir þessi landamæri án vandkvæða [...] það mun allt breytast núna og fyrir því er engin ástæða,“ bætti Blais við á myrkum degi í sögu bókasafnsins.

Reuters

IVPress Online

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert