Nauðsynlegt er fyrir Hamas að láta af völdum á Gasa-ströndinni til þess að hægt sé að tryggja tilveru Palestínumanna á Gasa.
Þetta sagði Mahmúd Abbas, forseti palestínsku heimastjórnarinnar og leiðtogi Fateh-samtakanna.
Fateh-samtökin eru stærsti stjórnmálaflokkurinn innan Frelsissamtaka Palestínu (PLO) en Abbas er leiðtogi bæði PLO og Fateh-samtakanna.
„Mikilvægt er að Hamas sýni samkennd gagnvart íbúum á Gasa. Mikilvægt er að Hamas láti af völdum og skilji það að ef þeir halda áfram völdum á Gasa muni það leiða til endaloka tilveru Palestínu,“ er haft eftir Abbas í yfirlýsingu.
Fateh-samtökin voru lengi vel við völd á Gasa, allt þar til Hamas náði þar völdum árið 2007.
Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísraels, hótaði fyrr í vikunni að innlima Gasa inn í Ísraelsríki ef Hamas sleppir ekki umsvifalaust þeim gíslum sem enn eru í haldi.