Borgarstjóri Istanbúls, Ekrem Imamogul, hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald vegna rannsóknar á hendur honum um spillingu.
Borgarstjórinn var yfirheyrður fyrir dómi í gær en saksóknarar í Tyrklandi saka hann um spillingu og stuðning við hryðjuverkasamtök. Imamogul hefur sagt þessar ásakanir „siðlausar“ og „tilhæfulausar“.
Fréttirnar af handtöku Imamoguls bárust á meðan kosning fór fram í Repúblikanaflokknum CHP um hver skyldi vera forsetaefni flokksins í forsetakosningunum 2028. Imamogul hefur verið talinn sá leiðtogi flokksins sem gæti sigrað núverandi forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, í komandi kosningum.
Erdogan hefur verið forseti frá árinu 2014 en þar áður var hann forsætisráðherra Tyrklands. Þá var hann einnig borgarstjóri Istanbúls frá 1994 til 2003.
Íbúar í Istanbúl hafa síðustu nætur mótmælt handtöku borgarstjórans og hafa einhverjir mótmælendur lent í átökum við lögreglu. Lögreglan handtók á fjórða hundrað í átökunum í nótt.
Að sögn blaðamanns AFP beitti lögreglan meðal annars táragasi og vatnsþrýstibyssu til að ná stjórn á mótmælendum.