Hljóðið ólíkt í sendinefndunum

Rustem Umerov, varnarmálaráðherra Úkraínu og formaður sendinefndar þeirra.
Rustem Umerov, varnarmálaráðherra Úkraínu og formaður sendinefndar þeirra. AFP

Erindrekar Bandaríkjanna og Úkraínu funduðu í dag í Sádi-Arabíu um mögulegt vopnahlé í stríðinu við Rússland. Bandaríkjamenn vonast eftir „raunverulegum framförum“ en rússnesk stjórnvöld vara við „erfiðum samningaviðræðum“ og að langt sé í land.

Þrír létust í árás Rússa í Kænugarði í nótt og tveir í árásum Úkraínumanna í Rússlandi.

Viðræður sendinefndanna áttu upprunalega að eiga sér stað samtímis með þeim hætti að bandaríska sendinefndin færi fram og aftur á milli þeirrar rússnesku og úkraínsku. Raunin varð hins vegar að viðræðurnar fara saman hver á eftir annarri.

Viðræðurnar fara fram á Ritz-Carlton-hótelinu í Ríad.
Viðræðurnar fara fram á Ritz-Carlton-hótelinu í Ríad. AFP

Úkraínumenn jákvæðir

Rustem Umerov, varnarmálaráðherra Úkraínu og formaður sendinefndarinnar, greindi frá því á Facebook að fundað væri með Bandaríkjamönnum í kvöld. 

„Á dagskránni eru tillögur um að vernda orkuinnviði og mikilvæga innviði,“ sagði Umerov og bætti við að verið væri að vinna úr fjölda flókinna mála. 

Háttsettur úkraínskur erindreki sagði við AFP-fréttaveituna að viðræðurnar gengju vel, „en við verðum að bíða til morguns með að draga ályktanir“.

Í ávarpi sínu í kvöld sagði Vlodomír Selenskí Úkraínuforseti að „Rússar væru þeir einu sem væru að draga stríðsátökin á langinn“.

„Sama hvað við ræðum við bandamenn okkar um þurfum við að þrýsta á Pútín að gefa út alvöru tilskipun um að hætta árásunum. Sá sem hóf stríðið verður að enda það.“

Framfarir að sögn Bandaríkjamanna

Á morgun munu Bandaríkjamenn funda með Rússum. Sendinefnd Rússa kom til Sádi-Arabíu í dag. 

Steve Witkoff, erindreki Bandaríkjamanna, virtist jákvæður á að samningar myndu nást sem leiddu til vopnahlés. 

„Ég held að þið munið sjá miklar framfarir í Sádi-Arabíu á mánudag,“ sagði Witkoff í viðtali á Fox News. 

Steve Witkoff, erindreki Bandaríkjamanna, er jákvæður á gang viðræðna.
Steve Witkoff, erindreki Bandaríkjamanna, er jákvæður á gang viðræðna. AFP

Rétt að byrja segja Rússar

Stjórnvöld í Moskvu eru hins vegar ekki eins bjartsýn. 

„Við erum einungis að hefja þessa vegferð,“ sagði Dímítrí Peskov, talsmaður rússnesku stjórnarinnar, við rússneska fjölmiðla. 

Hann sagði mörgum spurningum enn ósvarað. 

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur hafnað 30 daga vopnahléi og í staðinn lagt til hlé á árásum á orkuinnviði. 

„Það eru erfiðar viðræður fram undan,“ sagði Peskov. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert