Brenndi eiginkonu sína lifandi

Mótmælendur við dómshúsið í Bordeaux fyrr í dag.
Mótmælendur við dómshúsið í Bordeaux fyrr í dag. AFP

Réttarhöld hófust í Frakklandi í dag yfir Mounir Boutaa, 48 ára fransk-alsírskum manni, sem er sakaður um að hafa myrt fyrrverandi konu sína árið 2021 með því að brenna hana lifandi.

Vinnubrögð frönsku lögreglunnar hafa einnig vakið athygli í málinu en lögreglan þótti ekki grípa til fullnægjandi ráðstafana til að vernda konuna.

AFP-fréttaveitan greinir frá því að Boutaa hafi, eftir sambandsslit þeirra hjóna árið 2021, farið að elta eiginkonu sína, Chahinez Daoud, sem var 31 árs og þriggja barna móðir.

Keypti hann t.a.m. sendibíl sem hann lagði fyrir utan heimili hennar svo að hann gæti fylgst með henni án þess að hún vissi af því.

Hellti yfir hana bensíni og kveikti í 

Þann 4. maí sama ár réðst Boutaa á Daoud á götunni, skaut hana í báða fætur, hellti yfir hana bensíni og kveikti í henni.

Nágranni sem heyrði öskur Daoud reyndi að bjarga henni en án árangurs.

Boutaa tók hluta árásarinnar upp á myndskeið. Hann var handtekinn skömmu síðar og sagði við lögreglu að hann hefði viljað brenna Daoud fyrir „allt sem hún og dómskerfið gerðu“.

Hann neitaði þó að hafa ætlað sér að drepa hana. Hann hafi aðeins viljað refsa henni með því að brenna hana lítillega þannig að ör myndu sjást á henni.

Rannsökuðu mistök lögreglunnar 

Boutaa var látinn laus úr fangelsi í lok árs 2020 eftir að hafa tekið Daoud hálstaki og hótað henni með hníf. Þá hafði hann einnig verið sakaður um heimilisofbeldi af fyrri maka.

Nálgunarbann var gefið út á hendur honum en hjónin tóku aftur saman og bjuggu saman þar til í mars 2021, en þá lagði hún fram aðra kvörtun til lögreglunnar vegna Boutaa.

Komust rannsakendur málsins að því að meðhöndlun kvörtunar Daoud af hálfu lögreglumanns, sem sjálfur hafði verið fundinn sekur um heimilisofbeldi skömmu áður, hafi verið verulega ábótavant og hófst því rannsókn á mistökum lögreglunnar í málinu.

Kom þá í ljós að Daoud hafði t.a.m. ekki fengið svokallaðan hættusíma sem myndi gera henni kleift að fá beint samband við yfirvöld ef þörf væri á. Þá var Boutaa ekki látinn bera ökklaband sem myndi gera lögreglunni kleift að greina ferðir hans í nágrenni hennar.

Fjölskyldan höfðað mál gegn franska ríkinu

Leiddi rannsóknin til refsiaðgerða gegn fimm lögreglumönnum og hefur fjölskylda Daoud höfðað mál gegn franska ríkinu fyrir þau alvarlegu mistök sem gerð voru.

Þá voru tugir manna mættir fyrir utan dómshúsið í Bordeaux fyrr í dag til að mótmæla meðferð málsins, en þar fara réttarhöldin fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert