Henrik Sass Larsen, fyrrverandi viðskiptaráðherra Danmerkur, hefur verið handtekinn í tengslum við ásakanir um að hafa í fórum sínum þúsundir mynda og myndbrota af barnaníðsefni.
Fram kom í danska miðlinum Berlingske fyrir helgi að fyrrverandi ráðherra hefði verið handtekinn í tengslum við lögreglurannsóknina. Í ákæru sem sagt er frá í dönskum miðlum í dag er hann sagður hafa verið með í fórum sínum um tvö þúsund myndskrár og sex þúsund myndir með barnaníðsefni. Eins að lögregla hafi lagt hald á kynlífsdúkku í barnslíki á heimili hans.
Í gær svipti Larsen sjálfur hulunni af hver stjórnmálamaðurinn væri þegar lögmaður hans sendi út fréttatilkynningu í hans nafni.
Í tilkynningunni segir Larsen að hann hafi aldrei skaðað barn með nokkrum hætti og raunar hafi tilgangur hans með því að komast yfir efnið verið annar en ætla mætti. Segir hann tilganginn vera rannsóknarvinnu fyrir bók sem hann segist vera að skrifa. Muni hann leggja allt kapp á að klára þá vinnu og vonast hann með því til að hreinsa nafn sitt að henni lokinni.
Fram kemur í ákærunni að hluti efnisins sé flokkaður í þriðja flokk sem merkir að um afar gróft myndefni sé að ræða. Þar sem þolendur hafi sætt ofbeldi og nauðung. Um alvarleg brot er því að ræða og getur grófleiki efnisins haft bein áhrif á þyngd dóms verði Larsen fundinn sekur um háttsemina.
Segir í ákæru að hluti efnisins hafi fundist á heimili hans í júlí árið 2023 en einnig í annarri leit á heimili hans í febrúar í fyrra.
Larsen sat á þingi fyrir sósíaldemókrata í 19 ár og var meðal annars viðskiptaráðherra í tvö ár, frá ágúst 2013 til júní 2015. Hann sagði skilið við stjórnmálin árið 2019 og hafði þá glímt við þunglyndi og veikindi.
Larsen var framkvæmdastjóri ráðgjafarfyrirtækisins Aktive Ejere þar til ásakanirnar komu upp á yfirborðið. Hann hefur sagt starfi sínu lausu.