Múte Egede, fráfarandi formaður landsstjórnar Grænlands, sakaði í dag yfirvöld í Washington um að skipta sér af grænlenskum stjórnmálum með því að senda bandaríska sendinefnd til landsins.
Talsmaður Hvíta hússins í Washington greindi frá því í gær að Usha Vance, eiginkona J.D. Vance, varaforseta Bandaríkjanna, myndi heimsækja Grænland í þessari viku ásamt syni sínum og bandarískri sendinefnd, sem Egede sagði að myndi innihalda Mike Waltz þjóðaröryggisráðgjafa.
„Það verður að segja skýrt að það ber að virða sjálfstæði okkar og lýðræði án erlendrar íhlutunar,“ sagði Egede og bætti við að heimsókn sendinefndarinnar, sem á að standa frá fimmtudegi til laugardags, „er ekki einungis hægt að líta á sem einkaheimsókn“.
Frá því Trump komst aftur til valda í janúar hefur hann ítrekað sagt að hann vilji að Bandaríkin taki yfir Grænland og hefur jafnvel ekki útilokað að beita valdi til að ná því markmiði.
Egede hefur sagt að bandarískum stjórnvöldum hefði verið tilkynnt að það yrðu „engar viðræður“ fyrr en ný grænlensk ríkisstjórn væri mynduð í kjölfar kosninganna sem fóru fram 11. mars. Síðan þá hefur Egede farið fyrir bráðabirgðastjórn í landinu.
Jens-Frederik Nielsen, sem er leiðtogi Demokraatit sem vann sigur í kosningunum, og verður að öllum líkindum nýr leiðtogi heimastjórnar Grænlands, hefur sjálfur gagnrýnt orðræðu Trumps gagnvart Grænlandi og sagt að hún væri óviðeigandi.
„Við verðum að standa saman og standa upp gegn óviðandi meðferð. Því það erum við sem ráðum okkar eigin framtíð,“ sagði Egede.