Segir yfirvofandi heimsókn af vinalegum toga

Trump hefur ítrekað sagt að hann vilji að Bandaríkin taki …
Trump hefur ítrekað sagt að hann vilji að Bandaríkin taki yfir Grænland. AFP/Annabelle Gordon

Heimsókn bandarískrar sendinefndar til Grænlands er af vinalegum toga og á ekki að vera ögrandi að sögn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. 

Greint var frá því í gær að Usha Vance, eiginkona J.D. Vance varaforseta Bandaríkjanna, myndi heimsækja Grænland í þessari viku ásamt syni sínum og bandarískri sendinefnd.

Múte Egede, fráfarandi formaður landsstjórnar Grænlands, sakar yfirvöld í Washington um afskiptasemi af grænlenskum stjórnmálum með því að senda sendinefndina til landsins. 

Múte Egede.
Múte Egede. AFP

Grænlendingar hafi verið yfirgefnir

Trump hefur undanfarna mánuði ítrekað lýst áhuga sínum á að ná yfirráðum á Grænlandi. Hefur hann ekki útilokað að beita hervaldi til að ná því markmiði. 

„Okkur hefur verið boðið og þeim líkar vel við hugmyndina, af því þau hafa í raun verið yfirgefin. Ég held að Grænland gæti verið eitthvað sem er í framtíð okkar. Ég tel það mikilvægt. Það er mikilvægt út frá alþjóðlegu öryggi,“ sagði Trump er hann ræddi við blaðamenn í dag. 

Engar viðræður fyrr en ný ríkisstjórn er mynduð

Viðræður um myndun nýrrar heimastjórnar á Grænlandi standa yfir um þessar mundir en Egede hefur sagt að það verði „engar viðræður“ við Bandaríkin fyrr en ný ríkisstjórn verði mynduð. 

Jens-Frederik Nielsen, leiðtogi Demokraatit, verður að öllum líkindum nýr leiðtogi heimastjórnar Grænlands. Hann hefur sjálfur gagnrýnt orðræðu Trumps gagnvart Grænlandi og sagt að hún væri óviðeigandi. 

JD Vance og Usha Vance.
JD Vance og Usha Vance. AFP/Tobias Schwarz
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert